Fréttaskot

Strandagangan 2024

Strandagangan 2024

30. Strandagangan fer fram laugardaginn 9. mars og sunnudaginn 10. mars verður svo skíðaskotfimimót, leikjadagur og skíðaferð um Selárdalinn.

Strandagangan verður haldin 9. mars 2024 í þrítugasta skiptið. Fyrsta gangan fór fram 1995 og hefur verið haldin á hverju ári síðan. Gangan er hluti af Íslandsmótaröð Skíðasambands Íslands og er fyrir alla aldurshópa, öll kyn, byrjendur sem og metnaðarfullt keppnisfólk. Í ár verða í boði 4 km, 10 km og 20 km vegalengdir. Skráning fer fram eins og undanfarin ár á netskraning.is. Nú er um að gera að skrá sig sem fyrst því við munum af og til veita úrdráttarverðlaun meðal skráðra keppenda og verða þau afhent með keppnisgögnum.

Elítustart verður kl 11 og svo verður flæðandi start í 30 mínútur, frá kl. 11:00 til kl. 11:30. Keppendur eru hvattir til að vera með vatnsbrúsa með sér. Tímatöku verður hætt kl 14:30. Að lokinni keppni er keppendum boðið á okkar margrómaða kökuhlaðborð í Félagsheimilinu á Hólmavík en þar mun verðlaunaafhendingin einnig fara fram. Kökuhlaðborðið verður sérlega glæsilegt í ár en við fögnum ekki bara þrítugustu Strandagöngunni heldur á Skíðafélag Strandamanna 25 ára afmæli í ár. Áhorfendur og aðrir sem vilja styrkja gönguna geta keypt sig inn á kökuhlaðborðið á staðnum og þegar keppnisgögn eru afhent,

Á sunnudeginum heldur fjörið áfram en þá munum við bjóða upp á fjörugan leikjadag fyrir börn og unglinga á skíðasvæðinu okkar í Selárdal. Okkur finnst æðislega gaman að leika okkur og kunnum fullt af skemmtilegum leikjum. Á sunnudeginum munum við einnig bjóða upp á skemmtilega skíðaferð inn Selárdalinn. Aldurshöfðinginn okkar Rósmundur Númason ólst upp á Gilsstöðum í Selárdal og þekkir því svæðið manna best. 

Okkar annað skíðaskotfimimót fer einnig fram á sunnudeginum. Skíðaskotfimi er glænýr valkostur í skíðaíþróttinni á Íslandi og fer áhuginn sívaxandi. Í hádeginu á sunnudeginum verður í boði að kaupa kjötsúpu og rennur sú fjárhæð í kaup á skíðaskotfimibúnaði.

Engin ummæli enn
Leit