Fréttaskot
Förum nú létt yfir dagskrá Strandagönguhelgarinnar 8.-10. mars.
Á föstudeginum tökum við glöð á móti keppendum í Félagsheimilinu á Hólmavík milli kl 18 og 20 og afhendum keppnisgögn og nokkrir heppnir keppendur fá einnig afhenta vinningana sína sem þau hlutu í úrdráttarleiknum.
Á laugardeginum verðum við mætt kl 9 í Selárdalinn og höldum áfram að afhenda keppnisgögn og vinninga til þeirra sem komust ekki deginum áður. Afhendingu keppnisgagna lýkur kl 10:30, hálftíma fyrir startið. Biðjum við keppendur vinsamlega um að mæta tímanlega og virða tímamörk. Í síðustu göngu voru keppendur að mæta frekar seint og það var mjög óhentugt.
Gangan hefst með elítustarti á slaginu kl 11 og í kjölfarið verður fljótandi start til kl 11:20. Já, startið verður aðeins opið í 20 mínútur. Tímatöku lýkur kl 14:30. Sé útlit fyrir að keppandi nái ekki að ljúka sinni göngu fyrir þann tíma verður þeim bent á það og boðið að hætta keppni eða ljúka göngunni án tíma.
Okkar stórglæsilega tertuhlaðborð er opið frá kl 14 til ca 17 í Félagsheimilinu á Hólmavík. Við gerum svo ráð fyrir að stjórnendur og sjálfboðaliðar verði mætt í félagsheimilið kl 15:30 og þá hefst verðlaunaafhending fyrir sigurvegara göngunnar ásamt því að þau sem gengið hafa í Strandagöngunni í 10, 20 og nú 30 skipti fá sérstök verðlaun.
Á sunnudeginum verðum við aftur mætt í Selárdalinn kl 9 og afhendum keppnisgögn fyrir skíðaskotfimimótið. Afhendingu keppnisgagna lýkur kl 9:45 og mótið hefst kl 10.
Í hádeginu verður í boði að kaupa alvöru íslenska kjötsúpu fyrir aðeins 2.500 kr og gengur ágóðinn upp í kaup á nýju rifflunum sem við keyptum í haust. Ef fólk kýs að sleppa súpunni þá er fólki frjálst að borða sitt nesti í skálanum.
Eftir að við höfum gætt okkur vonandi sem flest á súpunni þá hefst fjörugur leikjadagur fyrir börn og unglinga ásamt því að Rósi leiðir áhugasama í skemmtilega skíðaferð inn Selárdalinn. Gert er ráð fyrir að dagskrá ljúki um kl 15-16.
Við hlökkum mikið til að fá ykkur öll í heimsókn í Selárdalinn. Sjáumst!